Saturday, 16. August 2008
Þeir sem eru hamingjusamir lifa allmörgum árum lengur en hinir óhamingjusömu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. „Hamingjan læknar ekki, en hamingjan veitir vernd gegn sjúkdómum,“ segir höfundur rannsóknarinnar, sem birt verður í næsta mánuði.
Ruut Veenhoven, prófessor við Erasmusháskóla í Rotterdam í Hollandi, kannaði niðurstður þrjátíu rannsókna sem gerðar hafa verið í heiminum á allt frá einu ári til sextíu ára, og kemst að þeirri niðurstöðu að áhrif hamingju á lífslíkur séu „álíka og það hvort maður reykir eða ekki,“
Hamingjusemi getur aukið lífslíkur um 7,5 til 10 ár, segir Veenhoven.
Lífshamingjan var lengst af umfjöllunarefni skálda og heimspekinga, en á undanförnum árum hafa hagfræðingar látið til sín taka í svonefndum hamingjurannsóknum.
„Sú hugmynd, að til sé ástand sem kallast hamingja, og að við getum komist að áþreifanlegum niðurstöðum um hvernig sú tilfinning er og hvernig hún verði mæld, kollvarpar mörgu,“ segir Bill McKibbin í bók sinni, Deep Economy: The Wealth of Communities and the Durable Future, sem kom út í fyrra.
„Þar með geta hagfræðingar farið að velta lífinu fyrir sér frá mun fleiri sjónarhornum. Þeir þurfa ekki lengur að spyrja: Hvað keyptirðu? Þeir geta farið að spyrja: Lifirðu góðu lífi?“
Niðurstöður Veenhovens verða birtar í tímaritinu Happiness Studies, sem hóf göngu sína fyrir átta árum.
Hann athugaði m.a. hvort lífshamingja hefði áhrif á sjúklinga, en samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum virðist hún ekki lengja líf þeirra sem eru við dauðans dyr. Aftur á móti virðist hún greinilega draga úr hættu á að þeir sem eru heilbrigðir verði veikir.
Þeir sem eru hamingjusamir eru líklegri til að hafa gát á þyngd sinni, vera meira vakandi fyrir sjúkdómseinkennum, gæta hófs í reykingum og áfengisneyslu og lifa almennt heilbrigðara lífi.
„Nú liggur fyrir að hamingjan ýtir undir líkamlegt heilbrigði, en ekki er ljóst með hvaða hætti,“ segir Veenhoven í niðurstöðum sínum.
Tekið af mbl.is