Góð frétt í mogganum
Thursday, 24. January 2008
Stressandi starf breytir líkamsstarfseminni
Starf sem veldur mikilli streitu hefur bein líffræðileg áhrif á líkamann og eykur verulega hættuna á hjartasjúkdómum, samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar, breskrar rannsóknar. Þátttakendur undir fimmtugu, sem kváðust finna til mikillar streitu í starfi, reyndust hátt í 70% líklegri til að fá hjartasjúkdóma en þeir sem ekki fundu til neinnar streitu.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar, sem rúmlega tíu þúsund opinberir starfsmenn í Bretlandi tóku þátt í, birtust í European Heart Journal.
Stressaðir þátttakendur höfðu minni tíma til líkamsræktar og borðuðu síður hollan mat, en einnig greindust hjá þeim mikilvægar lífefnafræðilegar breytingar. Streita virðist raska starfsemi þess hluta taugakerfisins sem stjórnar starfsemi hjartans, m.a. breytingum á hjartslætti.
Þeir þátttakendur í tilrauninni sem kváðust stressaðir reyndust einnig hafa slæma „flakktaugastarfsemi,“ þ.e. þau boð sem stjórna hjartslættinum.
Þá virðist ennfremur sem streita raski starfsemi stórs hluta innkirtlakerfisins, sem sendir frá sér hormóna, en til marks um þetta var að stressaðir þátttakendur í rannsókninni höfðu mikið magn hormónsins kortisóls í blóðinu á morgnana.
Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina telja sig nú hafa öðlast skilning á þeim líffræðilegu þáttum sem tengja streitu og sjúkdóma. Löngum hefur verið talið að tengsl væru þarna á milli, en erfitt hefur reynst að sýna fram á í hverju nákvæmlega þau væru fólgin.